MATARGATIÐ

laugardagur, júlí 15, 2006

Frábært ferðalag.

Síðustu dagar hafa verið alveg frábærir. Keyrðum til Frakklands á mánudaginn var. Malín skoðaði bækur fyrstu tvo tímana og svaf svo í næstu tvo þannig að það var ekki mikið vesen á henni :) Stoppuðum á einum stað á leiðinni og borðuðum nestið okkar. Bókuðum okkur inn á hótel sem er í litlum bæ rétt fyrir utan París og rétt hjá Disney. Ég get ekki sagt að eg mæli með þessu hóteli, kannski allt í lagi að vera þarna í eina nótt en maður var nú alveg farinn að langa eitthvert annað eftir okkar þrjár nætur. Liðið þarna skilur bara nánast enga ensku. Sumir skildu ekkert, ekki einu sinni þegar Laufey sagðist ekkert vilja af barnum, það var frekar fyndið. Stelpan vissi bara ekkert hvað hún var að meina þannig að það endaði með því að Laufey pantaði sér vatn :)
Morgunverðarhlaðborðið var það lélegasta ever. Þarna var boðið upp á eina gerð af hörðum rúnstykkjum og horn. Ofaná þetta gat maður svo sett marmelaði og þá er það upp talið. Það var ekki einu sinni boðið upp á ost. :( Kaffið var hrikalega vont, allt of þunnt og bara skelfilegt á bragðið. Sem betur fer borguðum við bara fyrir að fá morgunmat einu sinni, en hina tvo morgnana fórum við bara í risastóra kringlu sem var þarna hjá og fengum okkur að borða.
Talandi um þessa Kringlu, je minn eini hvað súpermarkaðurinn í henni var stór. Ég hef nú bara sennilega aldrei séð svona stóra kjörbúð. Þetta voru sko nokkuð margar Hagkaupsbúðir (eins og er í Kringlunni) og þarna var hægt að versla allt sem mann vantar. Þ.e.a.s ef maður finnur það sem maður ætlar sér. Það er svo annað mál :)
Þegar við vorum búin að bóka okkur inn á hótelið keyrðum við í næsta bæ en það er 20.000 manna bær sem Disney byggði. Það var frekar fyndið að keyra þarna um því allt var svo hrikalega gerfilegt eitthvað og óraunverulegt. Fyrir það fyrsta að þá var nánst enginn á ferli þarna. Öll húsin litu nánast alveg eins út og allt var eitthvað svo slétt og glansandi :)
Mér leið eins og ég væri komin í bíómyndina The Stepford Wives með Nicole Kidman þegar allt var bara plat.
Fórum svo á hótelið aftur og fengum okkur að borða á fínni veitingastaðnum sem þeir buðu uppa (sem var reyndar mjög fínn) þar sem hinn staðurinn sem í boði var, var lokaður. Fengum þarna 3 rétta máltíð sem var bara allt í lagi. Reyndar kom svolítið óhapp upp á. Eftir aðalréttinn byrjaði Malín að æla svona líka rosalega, gubbaði allt fína þykka teppið þeirra út, mig og sig. Greyjið litla varð bara alveg hrikalega slöpp allt í einu. Fórum bara með hana strax í ból og svaf hún ros vel um nóttina. Daginn eftir var búið að plana Disney, vorum búin að kaupa miða og alles.
Dagur 2.
Malín vaknaði spræk en var samt með 38 stiga hita. Við ákváðum að það væri alveg eins gott fyrir okkur að fara bara í Disney. Hún hefði orðið frekar mikið svekkt að missa af þessu, búin að bíða eftir þessu svo lengi. Það var líka ótrúlega mikill hiti inn í herberginu okkar og því ekki alveg efst á óskalistanum að hanga þar allan daginn. Malín var síðan svona líka spræk, hress og kát allan daginn. Ég var hinsvegar hálf ónýt fram að hádegi. Mér leið bara alveg hrikalega illa, var óglatt með svima og var í því að fá yfirliðstilfiningu. Ekki mjög spennandi. Ég held að það hafi samt bara verið að því að ég var ekkert búin að borða að ráði þann morguninn og svo hjálpaði það kannski ekki að hafa um eða yfir 30 gráður og sól. Mér fannst ég nú hálf nörraleg þarna. Ægir og Malín sátu úti á einum stað á meðan ég fór inn að kaupa mér samloku. Mér fór svo allt í einu að líða alveg hrikalega illa og varð ég beygja mig niður og anda vel og vandlega svo ég myndi ekki bara líða út af þarna út í röðinni. En eftir smá tíma fór mér að líða betur og það fór bara að vera voða gaman. Við dvöldum nánast eingöngu í þeim hluta garðsins sem er fyrir yngstu krakkana. Ægir fór með Malín í röð til að geta hitt Mínu Mús en það var eitt af því sem mátti bara ekki klikka. Hún var búin að tala um það svoooo lengi hvað hún ætlaði að knúsa hana mikið. Ég hélt nú kannski að hún myndi guggna þegar að henni kæmi en nei nei. Mín var sko ekkert hrædd. Fannst þetta algjört æði. Síðan var haldið í aðra röð til að hitta Bangsimon og var það nú ekkert síðra. Hann knúsaði Malín svo rosalega og Malín fannst voða gott að klappa honum enda er hann svo mjúkur. Við hittum svo Andres út á miðri götu og fengum mynd af okkur með honum og einnig sáum við rosa margar aðrar fígúrur eins og Guffa, Plútó, Mikka, Andresínu, Asnann í Bangsimon og marga marga fleiri. Við fórum svo 2 x í bátsferð og Ægir fór með Malín í hestahringekju sem var algjört æði. Við vorum þarna í garðinum alveg frá því það opnaði kl níu og til klukkan átta um kvöldið en þá var lokað. Við vorum búin að hugsa okkur að vera þarna í 2 daga en þetta var nú alveg nóg. Úfff hvað við löbbuðum mikið þennan dag. Svo er nú ekki ókeypis að vera þarna. Allt alveg fáránlega dýrt hvort sem það eru minjagripir, matur eða drykkir.
Það voru allir vel þreyttir eftir þennan dag og sváfum við bara öll ljómandi vel enda hitinn í herberginu okkar ekki óbærilegur eins og nóttina áður.
Dagur 3.
Vöknuðum ekki fyrr en kl níu. Fórum í sóru kringluna og keyptum okkur samlokur og djús sem við borðuðum bara í bílnum. Keyrðum svo til Parísar en það tók um klukkutíma. Vorum ekki nema hálftíma til Parísar en svo tók það okkur annan hálftíma að komast niður í bæ. Lögðum bílnum í bílastæðahúsi hjá Notre-Dame. Hittum svo Einar Gunnar, Laufeyju og stelpurnar fljótlega og fórum að rölta um borgina með þeim. Fórum á góðan veitingastað þar sem við fengum okkur ljúfenga rétti. Mér blöskraði nú samt pínu skammtastærðin :) ég pantaði mér kjúklingasalat og var ekki lengi að rífa það í mig enda var þetta frekar svona eins og forréttur heldur en aðalréttur. Frakkarnir ansi penir í skömmtunum :)
Við röltum svo alveg hrikalega langa (en skemmtilega og fallega ) leið upp að sigurboganum. Ég var þá næstum því punkteruð verð ég að segja. úffff hvað það er erfitt að labba svona mikið, grindin ekki alveg að þola það. Ég var líka búin að vera nánast stanslaust með samdráttarverki í eina 2 tíma þegar þangað var komi og er það nú kannski alveg nógu sniðugrt. Við ákváðum svo bara að taka neðanjarðarlest til baka að Notre-Dame sem var bara fínt. Ég er nú samt svo rugluð að ég fór að sjálfsögðu strax að hugsa um einhverjar sprengjur og vonda karla þegar þarna niður var komið. Æj mér er bara ekkert voða vel við að vera svona langt niðri í rassgati með svona ótrúlega mörgu fólki og mikið af þessu fólki er hálf skrítið og furðulegt eitthvað.
En...við komumst sem sagt á leiðarenda :)
Borðuðum svo 3 rétta á einhverjum stað sem leit nú bara ágætlega út svona utan frá, en o boy. Ég vildi óska þess að ég hefði ekki þurft á klósettið þarna. Þvílíkur viðbjóður. Þetta var svo mikið ógeð að ég ætla ekki að tala meira um það takk fyrir.
Við keyrðum svo aftur á hótelið okkar en Einar og fjölsk. voru búin að færa sig yfir á hótel í París.
Vorum ekki komin upp á hótel fyrr en að verða tíu og Malín bara hin hressasta :)
Dagur 4.
Vöknuum kl níu og fórum beint í stóru kringluna þar sem við settumst niður í einu bakaríinu, fengum okkur kaffi, eina langloku saman og pínu sætabrauð. Þetta kostaði nú næstum því augun úr en svona er það bara.
Fórum í kjörbúðina stóru og versluðum okkur snittubrauð, fullt af áleggi, ávöxtum, djúsi, kæfu, pylsum og fleira gúmmilaði. Brunuðum til Parísar og lögðum bílnum við hliðina á Eiffel turninum. Settumst þar niður og borðum þetta líka fína nesti :) Ekki mjög slæmt. Malín sofnaði svo bara og Einar og fjölsk. hittu okkur svo stuttu síðar. Stoppuðum þarna lengi lengi og nutum útsýnisins. Fórum svo og bókuðum okkur inn á hótel rétt hjá Notre-Dame. Við áttum reyndar bókað aftur á sveitahótelinu en ákváðum að fara bara degi fyrr og gista eina nótt í París sem við sjáum ekki eftir. Röltum svo niðri í bæ um stund og enduðum svo á því að fara út að borða á rosa flottan stað. Fengum okkur bæði 2 rétti. Ég fékk mér súpu í forrétt og eitthvað svín í aðalerétt en Ægir fékk sér nauta carpachio í forrétt og túnfisksteik í aðalrétt sem var víst sú besta sem hann hefur fengið :) Vorum ekki búin að borða fyrr en að ganga tíu og drifum við okkur þá bara upp á hótel. Við vorum öll dauðþreytt eftir daginn og vorum öll sofnuð klukkan ellefu.
Dagur 5. (14 juli sem er þjóðhátíðardagur Frakka)
Borðuðum morgunmat á hótelinu sem var bara mjög góður. Hann mátti nú alveg vera það enda rándýr. Ægir græjaði dótið okkar út í bíl og svo hittum við Einar og fjölsk. Sáum rosa flotta flugsýningu og fórum svo öll í siglingu um Signu sem var ekki leiðinlegt. Frábært að geta séð alla borgina sitjandi í huggulegheitum :)
Stoppuðum svo í bakaríi áður en við fórum af stað heim og fékk ég mér cappochino, brauð og tertu sem var algjör jommí :) (ein sem þarf að borða aðeins oftar en aðrir :) Lögðum af stað heim klukkan eitt og vorum að renna í hlað hér heima klukkan sex í gærkvöldi.
Við erum öll alveg svakalega ángæð með þessa ferð okkar. París er alveg frábær borg og langar okkur að fara þangað fljótega aftur. Það er samt alveg möst að komast þangað bara 2 næst. Þó að Malín hafi verið ótrúlega stillt allan tímann að þá er bara meiri afslöppun að vera barnlaus. Einar og Laufey voru alveg sammála þessu. Þau ætla sko að skilja stelpurnar eftir næst og fara bara 2 :)
Gallarnir við Frakkland eru þeir að það er allt alveg fáránlega dýrt þarna. Ég held að það sé t.d ekki ódýrara að ferðast þar heldur en bara um Ísland. Maturinn er kannski aðeins ódýrari en allir drykkir eru fáránlega dýrir. Kókglas kostaði td rúmar 300 kr á sumum veitingastöðum og bjórinn og léttvínið var bara jafn dýrt og heima. Svo er þetta fólk ekki alveg að gúddera það að maður kunni ekki frönsku. Sérstaklega ekki það fólk sem við hittum eins og t.d á hótelinu okkar. Það talaði bara stanslaust frönsku við man þó að maður skildi bara ekki neitt. Það var nú öðruvísi í Disney og á sumum stöðum í París. Þar töluðu nú sumir fína ensku :)
Það er nú líka ekki hægt að kvarta undan veðrinu sem við fengum, en það voru 30 gráður og sóla alla dagana :)
Segi þetta nóg af ferðasögum í bili.

2 Comments:

  • At 1:34 e.h., Blogger QUASAR9 said…

    Hi de hi!
    Hope you are having a glorious day. Yep, I can hear your heart beat!

     
  • At 7:13 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Vá vá. Þetta hefur greinilega verið alveg frábær ferð. Já París er frábær en helv... dýr. Þið hafið greinilega fengið flott veður af myndunum að dæma.
    kveðja frá Íslandi
    Alma :)

     

Skrifa ummæli

<< Home