MATARGATIÐ

mánudagur, nóvember 27, 2006

Fín helgi.

Þá er þessi helgi að baki. Hún var svona líka ljómandi fín. Ægir hætti í vinnunni rétt fyrir hádegi á föstudag þar sem ég skrapp til tannlæknis. Fór bara í skoðun sem tók ekki nema 10 mín. Teknar voru 2 myndir og svo kemur það í ljós í næstu viku hvort þær séu kannski bara allar skemmdar...en ég vona nú ekki.

Eftir hádegi á föstudag drifum við okkur í góðu veðri í dýragarðinn. Stubban var þangað mætt í fyrsta sinn og svaf hún þessa ferð algjörlega af sér. Malín skemmti sér rosalega vel eins og alltaf. Finnst ekkert smá gaman að skoða dýrin. Hún er nú líka alveg ótrúleg. Hún þekkir orðið hvert einasta dýr sem til er, eða svona næstum því :) Mér finnst ekkert smá fyndið að hún skuli t.d vita hvernig gnýr lítur út, en fyrir ykkur sem hafið ekki hugmynd um hvernig dýr það er að þá er það svona svipað og horuð belja með stór horn :)
Malín steinsofnaði í bílnum þegar við vorum að koma inn í Oisterwijk þannig að við tókum auka bíltúr sem var bara skemmtilegt í blíðunni. Veðrið var svo fallegt og svo er svo gaman að keyra um sveitirnar og sjá alla haustlitina. :) Á milli fjögur og fimm fer að dimma hjá okkur og þá er ótrúlega falleg birta.

Við fórum svo til Tilburg í hádeginu á laugardaginn. Versluðum aðeins fyrir jólin, t.d einn jólakjól á Malín og einar 9 sokkabuxur á hana og stubbuna. Ég ætla sko ekki að
eiga margt eftir þegar ég kem heim. Ætla bara að njóta þess að fara á kaffihús og drekka kakó með rjóma og borða álvöru tertur en það fær maður sko ekki hér. Það eru alltaf sömu lummulegu tertulufsurnar sem eru í boði hér. Frekar fúlt. Við fórum svo að sjálfsögðu á veitingastað og fengum okkur smá snarl. Alveg merkilegt hvað maður verður alltaf glor í svona verslunarferðum :)
Ég skrapp svo ein niður í bæ hérna hjá okkur og verslaði aðeins meira :) ekki leiðinlegt. Ég var nú samt alveg í nörragírnum verð ég að segja. Fór inn í eina búð með einn stóran poka sem innihélt vörur úr öðrum búðum. Fékk mér litla græna körfu til að halda á og setti pokann þar ofaní. Náði svo í 2 litla hluti sem ég hélt bara á og borgaði. Svo þegar ég var búin að labba niður hálfan bæinn að þá tek ég eftir því að ég er ennþá með þessa grænu körfu á handleggnum. Frekar hallærislegt. Ég mátti því labba í þessa búð aftur og skila henni. Ég átti mjög erfitt með mig þarna, var alveg við það að springa úr hlátri. Svona getur maður nú verið sauðalegur, enda hefur maður ekki langt að sækja svona nörrahátt (hóstmammaogLindaogfleirihóst)

Tókum því rólega í gær. Löbbuðum með stelpurnar á 3 róluvelli sem eru hérna í kring og skruppum svo niður í bæ seinnipartinn en það var kaupsunnudagur í gær sem þýðir það að allt er opið :)
Fórum í nokkrar búðir og m.a í eina skóbúð þar sem við keyptum 3 skópör á Malín. Mér finnst ég alltaf vera að kaupa skó á hana og þeir bara verða strax of litlir. Það líður ekki að löngu þar til hún verður komin í sömu stær og ég. Við keyptum eina mjög fina leðurskó á hana, kuldaskó sem eru loðfóðraðir (góðir fyrir Íslandsförina) og ein ótrúlega krúttleg og flott kúrekastígvél sem eru reyndar úr einhverju gerfiefni. Ég bara varð að kaupa þá. Það var mjög mikil útsala í gangi þarna. 25 % afsláttur af fyrsta parinu og helmings afsláttur að því næsta. Svo kostuðu kúreka stígvélin og kuldaskórnir ekki nema 1000 kr þannig að þetta var mjög vel sloppið. Við enduðumsvo á því að sitja úti á einu kaffihúsinu. Inni var risastórt jazzband að spila og fólk var í þvílíka stuðinu þarna og sumir að dansa alveg á fullu. Gaman að þessu.
Ég dreif mig svo í það að pakka inn fyrstu jólapökkunum í gær. Reyndar eru það pakkar sem taka á upp um næstu helgi 5 des. Hér í Hollandi er það aðaldagurinn. Krakkarnir taka þá upp pakka sem jólasveinninn (Sinterklaas) færir þeim. Við ætlum að fara heim til Gauta og fjölsk. þar sem við höfum frétt það að þangað ætli hann einmitt að koma ásamt nokkrum svörtu Pétrum en það eru hjálparsveinar hans. Malín var alveg hrikalega hrædd við þessa litlu svörtu karla í fyrra en núna er hún rosa spennt þegar hún sér þá. Þeir eru í því að labba um alla bæi núna og gefa piparkökur.

Ég setti nokkrar myndir inn á barnalandið í gær. Setti einnig nokkur gullkorn frá Malín inn um daginn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home