Enn ein langlokan.
Það er svona þegar það líður allt of langt á milli blogga. Þá er bara allt of mikið búið að gerast hjá manni. Nokkrir búnir að reka á eftir mér þannig að hér kemur það sem hefur drifið á daga mína síðan síðast.
Langar samt að byrja á því að þakka fyrir commentin. Æðislega gaman að fá svona skemmtileg comment :).
Mamma kom til okkar nokkrum dögum eftir að við komum heim frá spáni. Stoppaði í 2 vikur sem voru allt of fljótar að líða. Veðrið hefði mátt vera mun betra, allt of oft rigning og hálf kalt :(. Hún fékk samt nokkra daga sem voru mjög góðir og náði hún sér í all nokkrar freknur og nokkra rauða sólbrunabletti já og ekki má gleyma öllum bitunum sem hún fékk síðustu dagana. Hef bara sjaldan séð annað eins. Hún var án gríns eins og eftir hópstlagsmál. Öll bólgin og þrútin í andlitinu.
Litli ísskápurinn okkar var smekkhlaðinn þegar mamma mætti á svæðið. (Þessi mynd er sérstaklega fyrir tengdó :) ) Hlakka til að fylla nýja flotta ísskápinn okkar sem er væntanlegur í næstu viku. Ekki að það sé neitt pláss fyrir hann hér samt.
Malín fékk að fara eftir háttatíma út á völl til að sækja ömmu. Var vel græjuð með heyrnatól og I-pod með sögum og tónlist.
Daginn eftir grilluðum við heilbakaðann fisk í salti. Mjög gaman.
Á hverju ári í kemur risastórt tívólí í bæinn til okkar. Þetta er í 3 skiptið sem mamma kemur akkúrat á þeim tíma. Að sjálfsögðu var farið í tívólí og nokkur tæki prófuð. Stelpurnar skemmtu sér samt best á hestbaki. Vildu helst bara vera þar.
Á föstudaginn fórum við hjónin í helgarferð til Amsterdam. Svaka gaman og ósköp ljúft að fá að sofa í friði. Ekki margar nætur sem ég hef verið án þeirra systra. Ætli þær séu ekki svona 3 sirka fyrir utan tímann sem ég var á spítalanum eftir að Emma fæddist.
Við hjóluðum niður á lestarstöð og tókum lest. Vorum í Amsterdam klukkan hálf sex sirka. Röltum okkur upp á hótel sem var staðsett í miðbænum. Þetta var Radison SAS hótel sem við fengum voða fínt herbergi á. Tókum eftir því upp á vegg að þessar 2 nætur hefðu átt að kosta um 100.000 en sem betur fer átti Ægir punkta sem við nýttum :).
Höfðum fataskipti og kíktum svo aðeins á hótel barinn sem var virkilega flottur. Tókum okkur svo taxa á Líbanskan stað sem heitir Nomads. Vorum búin að bóka borð þar fyrr í vikunni. Staðurinn var vel falinn. Ekki týpískur staður sem fólk rambar bara á og fær sér að éta. Mig var búið að langa svo að fara á stað sem væri þannig að við myndum helst bara sitja á pullum og borða með höndunum og rættist það nú alveg:). Þetta var a.m.k mjög líkt því sem ég hafði hugsað mér. Þegar við komum inn á staðinn tók mjög krúttlegur strákur á móti okkur í furðulegri munderingu. Hálfgerðum kufli sem var samt mjög opinn þannig að það skein í horaða útlimi. Hann leiddi okkur svo inn í sal sem var mjög dimmur. Þar var risastór kringlóttur sófi þar sem fólk sat á með litla smárrétti á stóru fati. Utan við þennan hringsófa var svo pínu gönguleið fyrir þjónana en svo kom annar stór hringur sem var upp við vegginn og þar sátum við ásamt fjölda manns. Það fyrsta sem við gerðum var að fara úr skóm og sokkur og svo kom maður sér notalega fyrir í sófanum með allar pullurnar. Stráksi kom svo með ilmandi vatn í katli og fat sem hann notaði til að þvo okkur um hendurnar. Við pönntuðum okkur margrétta óvænta máltíð (kemur ekki að óvart). Fengum fyrst alveg dandala ljómandi fína forrétti sem við vorum rosa ánægð með. Hefði átt að borða mig sadda af þeim þar sem þeir voru lang bestir. Þetta voru allskonar brauð sem litu út eins og ofurþunn soðibrauð og síðan smurði maður ýmsu gúmmula þar ofaná. Algjört jommi. Næst komu aðalréttirnir sem voru ekki alveg jafn góðir, en samt allt í lagi. Að lokum fengum við 2 eftirrétti sem ég gat því miður ekki smakkað á þar sem í öðrum voru fersk jarðaber og í hinum var allt morandi í hnetum. Sem betur fer er ég orðin aðeins varkárari í sambandi við mat en þarna hefði nú getað farið illa. Ægir var ekki mjög ánægður þegar hann borgaði þar sem við tókum það skýrt fram að ég væri með ávaxta og hnetu ofnæmi og það mætti alls ekki vera í matnum. Frekar súr endir á annars frábæru kvöldi. Veðrið var mjög gott og því upplagt að rölta upp á hótel þrátt fyrir langa vegalengd.
Þessi sæta magadansmær sá um að gleðja mannskapinn
Ekki oft sem bobbarnir á manni koma svona ljómandi vel fram á mynd..hihi :) Litlu vöðvarnir mínir á öxlinni krúttlegir. Þetta er svona eins og ég hafi klippt haus af mér og sett á annan búik. Frekar fyndið. :)
Vöknuðum nú frekar snemma á laugardaginn. Drifum okkur í morgunmat á hótelinu sem var mjög góður. Fengum okkur svo göngu, komum við á kaffihúsum og litum við á markaði.
flottur staður sem við römpuðum á.
Tókum svo leigara á Jamie Oliver veitingastaðinn sem heitir 15. Eins gott þar sem það kom biluð rigning. Staðurinn æði og maturinn algjört jommí. Ægir fékk sér svepparisotto en ég fór í steikina :) stoppuðum heillengi þarna og nutum þess alveg í botn að vera barnlaus.
Þessi gaur bjó til pasta STANSLAUST :)
Eftir þettan gómsæta mat röltum við frá Jamie og inn í bæ. Fórum í búðarráp þar sem Ægir keypti sér m.a nýjan frakka, mjög flottur. Vorum samt búin að ákveða það að þetta yrði ekki verslunarferð. Ætluðum ekki að eyða tímanum inni í búðum. Drifum okkur svo upp á hótel þar sem maður sturtaði sig og reyndi að gera sig sætan. Tókum okkur svo taxa á veitingastað sem við vorum líka búin að bóka borð á. Sá staður heitir Le Zink. Mjög flottur staður en maturinn var ekki alveg að gera sig fyrir mig. Enn og aftur var það óvæntur matseðill sem við völdum okkur. Hefði betur átt að sleppa því. Ég er loksins búin að viðurkenna það fyrir Ægi að ég sé matvönd. Hef aldrei tekið það í mál fyrr en núna. Mér finnst auðvitað matur misgóður eins og öllum en fúlsa nú sjaldan við einhverju sem hægt er að éta,, en..
Við sögðum þeim að sjálfsögðu frá ofnæmum mínum og eins að ég væri alls ekki fyrir hráan fisk og já já allt í lagi.
Fyrsti rétturinn sem við fengum var einhver lifur og pate sem mér fannst alveg virkilega vont þannig að ég át það ekki. Næst fengum við fiskflak með roði sem smakkaðist voða fínt. Hefði samt viljað fá meira meðlæti heldur en bara grænar baunir. Síðan kom eitthvað hindberjafrauð sem ég þorði nú lítið að smakka og þar á eftir kom svo sjokkið. Kanína með smátterís meðlæti takk fyrir. Ég gat bara alls ekki hugsað mér að taka einn bita af þessu krútti. Sá bara fyrir mér Raphael gamla kanínukarlinn minn sem ég átti til fjölda ára. Mér var farið að líða ansi illa á þessum fína stað. Þjónarnir löbbuðu heillengi framhjá borðinu án þess að taka diskana okkar eftir að Ægir var búinn að borða. Enginn vildi tala við þessa furðulegu sem át ekki neitt. Loksins kom ótrúlega fýluleg stelpa og sagði ég við hana að ég bara gæti ekki hugsað mér að borða kanínu. Eftirétturinn var glataður. Ægir fékk sér reyndar fullt af ostum sem honum fannst góðir en ég fékk hallærislegan vanilu ís sem var hundvondur. Gaman að fara með mér út að borða eða fá mig í mat hihi :).
Frekar súrt að spreða hrikalega miklum pening í eitt lítið fiskflak. Held við höfum borgða 200 evrur á þessum stað eins og á þeim Líbanska. Jamie kostaði okkur mun minna, enda bara einn réttur þar :)
Ég var orðin sársvöng eftir að hafa setið á þessum stað í nokkra klukkutíma þannig að ég endaði á því að fara inn á kínastað á leiðinni heim og fá mér sma núðlur fyrir svefninn.
Fengum okkur aftur góðan morgunmat á hótelinu á sunnudagsmorguninn. Röltum svo á markað sem er kallaður sunnudagsmarkaðurinn þar sem listamenn sýna verk sín. Fegnum hellidemmbu á okkur og forðuðum okkur inn í æðislega bókabúð þar sem við hefðum getað verið allan daginn. Ég komst aldrei upp á aðra hæð einu sinni en ég held að hæðirnar hafi verið 3 eða 4. Ægir keypit sér 3 bækur og ég 1.
Settumst niður á kaffihús og kíktum í bækurnar á meðan ég smjattaði á lauksúpu..jommí.
Tókum lestina heim og vorum í Oisterwijk klukkan fjögur. Mamma beið heima (en grísirnir 2 voru í góðu yfirlæti hjá henni) með heitar pönnsur. Jommí. Veðrið var frábært þannig að við drifum okkur beint á Trampolínstaðinn.
Þær systur áttu ánægjulega helgi með ömmu. Þær fengu t.d ávexti og súkkulaði fondu á kósýkvöldi og fóru í prinsessuleik.
Seinni vikuna sem mamma var hjá okkur leigði hún sér hjól með barnastól. Við nutum þess í botn að hjóla með henni út í skóg og skoða bæinn. Frábært að ferðast um a hjóli hér.
Ægir átti afmæli þann 24 og tók hann sér frí í tilefni dagsins. Fengum okkur morgunhressingu úti í garði og keyrðum svo í apagarð sem er í rétt rúmlega klukkutíma fjarðlægð. Höfum farið þangað einu sinni áður en Malín 2x. Þetta er risastór garður þar sem mikið af öpunum ganga um lausir. Voða gaman. Vorum búin að ætla okkur að grilla um kvöldið en því miður var ekkert gas í boði. Komum við á grískum stað sem við höfum ekki prófað áður (merkilegt nok) og tókum take away sem við borðuðum úti í garði með bestu lyst.
Systur mættar í apagarðin í blíðu.
Agalega krúttlegir þessir apar sem skoppa út um allt hjá manni.
Górillurnar flottar. Voru með þvílíku atriðin :)
Aldrei verður maður of gamall fyrir rennibrautir. Þessi var rosaleg. Hrikalega löng og snúin. Malín fór fyrst alein en svo sá ég að þessi braut var nú bara fyrir mun eldri krakka, eða fyrir krakka yfir 1,20. Ég dreif mig því með henni í næstu ferð og gólaði alla leiðina.
Emman fór í aðeins styttri braut en samt bara gaman.
Sumir voru í því að gera flottar æfingar :)
Á föstudagskvöldið fór mamma svo heim :(. Ægir kom snemma heim úr vinnu þannig að við mamma áttum ánægjulegan dag saman. Hjóluðum niður í bæ, settumst á kaffihús og fórum í búðarráp í bongoblíðu. Mamma náði að kaupa sér tvennar flottar buxur í ferðinni á frábæru verði. Ég verslaði nú mun meira þó ég hefði ekki ætlað að kaupa neitt. Keypti mér einar buxur (alveg eins og mömmu), 2 gollur sem ég hef verið að rembast við að finna lengi, stutterma svarta skyrtu og ýmislegt á stelpurnar fyrir veturinn. Allt á mjög fínu verði. Ég held að það sé ekki sami skítahátturinn í búðarfólki hér eins og heima. Hef ekki tekið eftir því að verðin séu hækkuð fyrir útsölur eins og gert er á mörgum stöðum heima, enda er það ekki alveg normal. Skiluðum svo hjólinu hennar mömmu og héldum heim á leið þar sem ég bauð upp á síðustu kvöldmáltíðina í bili. Gerði ferskt salat með kjúklingi, tómötum, olívum, brauðteningum, ansjósum og fleiru.
Veðrið búið að vera æði síðan mamma fór. Um 30 gráður og sól og ský til skiptis. Fórum á sunnudagsmorguninn í Hondsberg sem er æðislegur staður hérna í Oisterwijk. Þar eru bæði leiktæki, dýr og allt ótrúlega fallegt. Eftir hádegið drifum við okkur til Haren sem er í 10 mín. fjarðlægð og sáum sirkus :)
Sátum á 7 bekk og Emmu tóks að detta niður um þetta pínu litla gat. Skil ekki í ósköpunum hvernig hún fór að því að komast niður og ekki heldur að hún skildi ekki slasa sig neitt. Það var frekar erfitt að ná henni upp aftur, enda frekar mikið hátt fall.
Við erum mikið búin að sulla og stripplast í garðinum okkar undanfarið. Voða næs.
Emma er í því að gera æfingar þessa dagan. Þessi er í uppáhaldi hjá henni.
Jæja.
Held þetta sé nóg í bili og gott betur.
dúdú