Var ofsa fínn. Fórum öll saman á fætur á milli sjö og átta. Malín fór svo í tónlistarskólann klukkan tíu. Við Ægir og Emma röltum svo klukkan ellefu til að sækja hana. Fórum beint upp í búð að versla smátterí. Klukkan hálf tólf mætti svo Sinterklaas á svæðið á hvíta hestinum sínum ásamt 2 aðstoðarmönnum. Emma var ekkert smeyk við þetta lið en Malín aftur á móti var skíthrædd við jóla. Vildi alls ekki setjast hjá honum og láta mynda sig. Hún gaf þá skíringu að hún væri hrædd við hann að því að hann væri með gleraugu. Merkilegt dýr þessi mús okkar.
Eftir hádegismatinn keyrði ég niður í bæ (ALEIN) sem var ótrúlega næs. Ég man bara ekki hvenær ég fór svona ein eitthvað síðast. Ji..hvað þetta er nauðsynlegt. Ég var í rúma 2 tíma að rölta um búðirnar og njóta þess að hugsa bara um MIG :).
Ég var búin að segja Ægi að mig langaði til að finna eitthvað jóladress á mig, svo ætlaði ég að kíkja á Diesel gallabuxur og tékka á skóm svona í þúsundasta skiptið. Ægir hafði nú ekki mikla trú á því að ég fyndi skó en sko mína. Ég kom heim 3 pörum ríkari :) Frekar sátt. Ég keypti reyndar enga svona skó eins og mig vantar en það er nú önnur saga.
Ég keypti mér rosa flott leður stígvél sem note bene passa utan um mína feitu kálfa. Síðan keypti ég aðra með hæl sem eru pínu pæjulegir og á þeim var svona miði þar sem stóð að ég mætti velja mér aðra skó ókeypis með. 3 skórnir eru líka með smá hæl, voða svona fínlegir bara.
Ég keypit mér líka mjög töffaralega unglinga hettupeysu í einni barnadeildinni. :) Stundum mjög heppilegt að vera pínu hobbitalegur.
Ég var reyndar ótrúlega mikið fúl með eitt. Ég fann mjög flottan efri part í Espirit búðinni sem var ekki peysa en samt ekki mussa. Ermarnar voru pínu víðar en með þröngu stroffi framan á, svo var þetta þröngt um axlir og brjóst en kom svo vítt niður og náði rétt fyrir neðan rass. Efnið var ótrúlega kúl og þetta var svona silvurlitað með smá glimmeri :). Ég ákvað að hugsa aðeins málið því ég átti eftir að fara í eina búð sem ég var viss um að ég fyndi the dressið. Þar fann ég reyndar ekkert nema flottar níþröngar svartar gallabuxur sem hefðu smellpassað innan undir silvurdæmið. Ég keypti þær reyndar ekki en skaust aftur í Espirit til að kaupa það silvraða en nei nei..allt uppselt :(. Ég fór næstum því að grenja. Ég var ekkert smá svekkt :(. Þvílík óheppni.
Ég skrapp líka í gallabuxnabúðina og ætlaði að fá mér svona Diesel buxur eins og Bogga mágkona er búin að kaupa sér (herm herm.)
Ég spurði um þær (en þær eru kallaðar hipper). Dúdarnir urðu pínu hissa, eða kannski hneykslaðir ..hi hi og sögðu að það væri nú módel sem þeir hefðu verið með fyrir 2 árum síðan. Ég sagðist alveg muna eftir því enda á ég tvennar þannig buxur og benti þeim á að þetta væri nýjar svoleiðis með smá breytingum. En því miður voru þær ekki til hjá þeim. Hann sagði mér að það væri séns að fá þetta í Eindhoven en þar er stór Diesel búð. Því miður er ekki séns fyrir mig að komast þangað fyrir laugardaginn þannig að þetta verður að bíða.
Eigandinn sagði mér svo að allar buxur sem eru í gangi núna væru svona rosa mikið þröngar niður (ekki sem sagt eins og þessar hipper) en hann hughreysti mig nú með því að láta mig vita að sennilega yrði breyting á þessu næsta vor þar sem hann byggist við því að módelin yrðu aðeins stærri en nú (og þá var hann ekki að meina á hæðina heldur hitt) :). Frekar fyndið. Mér leið nú pínu eins og ég væri ótrúleg bolla í hans huga :).
Þegar ég kom heim skrapp Ægir með stelpurnar út að hjóla og ég græjaði aðeins heimilið. Hann fór svo með þær upp í bað á meðan ég byrjaði á að dunda mér með kvöldmatinn.
Við hjónin erum búin að hafa okkar kósíkvöld núna 3 helgar í röð a.m.k. Ótrúlega næs. Þá borðum við saman eitthvað ótrúlega mikið jommí eftir að stelpurnar eru farnar að sofa og oftar en ekki horfum við á eitthvað skemmtilegt saman á eftir. Það er bara alveg nauðsynlegt að fá að borða einstaka sinnum í friði.
Í gærkvöldi eldaði ég flotta tómatsúpu með kryddjurtum og mozzarellaosti(sem var forrétturinn okkar Ægis en aðalmáltíð stelpnanna) og út í okkar súpu setti ég líka slatta af alfa alfa spírum og basiliku, en stelpurnar fengu kjúklingabita í sína.
Á meðan Ægir las fyrir stelpurnar og kom þeim í ból að þá fór mín að útbúa matinn sem var nú ekkert slor. Ægir vissi ekkert hvað ég ætlaði að sletta fram úr erminni í þetta sinnið :).
Gaman að hafa eitthvað svona óvænt.
Ég var búin að kaupa 2 risa hörpudiska, risarækjur og eina pínulitla nautakjötsneið ásamt öðru gúmmilaði.
Síðan skar ég niður snittubrauð, setti á það olíu og hvítlauk og grillaði það.
Gúmmimlaðið fór svo ofaná snitturnar. Voða gott.
Þetta passaði svona líka akkúrat handa okkur. Það var bara ein snitta eftir í afgang.
Eftir þetta fékk ég mér svo kaffi og hvítt súkkulaði sem klikkar nú ekki.
Núna áðan skutluðum við mæðgur Ægi á lestarstöðina í Den Bosch. Hann er að fara til Íslands í dag og verður þar í 2 daga en svo fer hann til Noregs. Hann kemur aftur á fimmtudagskvöldið en verður svo að vinna allan föstudaginn fram á kvöld út í rassgati þannig að við sjáum hann varla fyrr en við leggjum af stað út á flugvöll n.k laugardag. Frekar fúlt